12.1.15

LOKAUPPGJÖR 30.12. 2014

"All things must come to an end" sagði Nick Cave. Svo fór og um Populus tremula. Eftir 10 ár í kjallaranum góða var kominn tími til að láta annað fólk hafa kyndil og lykla, Populus tremula mannskapurinn dreifður um allar koppagrundir og hætta á vissri stöðnun. Á þessum 10 árum hafa verið haldnir yfir 300 viðburðir í Populus tremula, þar af 47 á síðasta ári ( ef talinn er með minningarkonsertinn um Sigurð Heiðar Jónsson í Hofi 25.10. ). En síðasti viðburður á vegum Populus tremula var LOKAUPPGJÖRIÐ 30.12. Alveg frá byrjun höfum við haldið Áramótauppgjör þann 30. des, nema fyrsta árið þá var hinsvegar haldin Áramótaskemmtun þann 1.1. 2005, alltaf hefur verið góð mæting og stemming og mjög margt gott tónlistarfólk stigið á sviðið. Við byrjuðum með Tom Waits og svo Nick Cave og enduðum með því að spila valin lög þessara höfuðsnillinga. Ljósmyndirnar tóku :Aðalsteinn Svanur Sigfússon, Daníel Starrason, Fróðný Pálmadóttir, Hreggviður Ársælsson, Ingi Þór Tryggvason og Sonja Dröfn Helgadóttir. Við þökkum þeim og öllum okkar þátttakendum og gestum kærlega fyrir komuna og hjálpina við að gera skammdegið skemmtilegt.

28.12.14

TAKK FYRIR KOMUNA

Laugardaginn 27.12.2014 var opnuð síðasta sýningin undir merkjum Populus tremula í kjallaranum góða. Við hættum eftir 10 góð ár og nýtt fólk tekur við með nýja siði og nýtt nafn. Passandi titill þessarar lokasýningar er TAKK FYRIR KOMUNA og er úrval ljósmynda sem teknar hafa verið á þeim yfir 300 viðburðum sem Populus tremula hefur hýst. Myndatökumenn eru Daníel Starrason, Kristján Pétur Sigurðsson, Fróðný Pálmadóttir, Aðalsteinn Svanur Sigfússon og ef til vill fleiri. Populus tremula segir enn og aftur TAKK FYRIR KOMUNA.