31.12.13

Hið árvissa Áramótauppgjör

Mánudagskveldið 30.desember var haldið Áramótauppgjör Populus tremula í kjallaranum góða. Þetta var að vonum skemmtilegt, malpokar leyfðir og ekki sást nema sælubros á fólkinu sem fyllti staðinn. Skemmtiatriði voru ekki af verri endanum fremur en endranær. DJ Delicious sá um að koma mannskapnum í stuð og róa niður eftir rokkið. Heflarnir riðu svo á vaðið á rauða teppinu og gerðu sig vel. Svefnpurrkur komu næstir og spiluðu lög Purrks Pilnikks, en bara betur. Og að lokum skólahjómsveitin frá því 86 í Glerárskóla EXIT ekki eins síðhærðir og forðum en sýndu og sönnuðu að góðu rokki gleymir maður ekki. Kærar þakkir fyrir kvöldið og öll árin í Populus tremula, næsta haust verður félagsskapurinn 10 ára og þá höldum við hátíð.

16.12.13

Uppheimaskáld

Laugardagskvöldið 14.desember 2013 stigu sex skáld og rithöfundar, sem gefa út hjá forlaginu Uppheimum, í pontu í Populus tremula undir styrkri stjórn okkar manns Aðalsteins Svans Sigfússonar. Skáldin voru og eru Guðbrandur Siglaugsson, Örlygur Kristfinnsson, Bjarki Karlsson, Ragnar Hólm kom svo og las fyrir Pálma Gunnarsson, Urður Snædal og Sigmundur Ernir Rúnarsson. Þetta var skemmtileg kvöldstund á aðventu og uppbyggilegri en margt sem fram fer um þetta leyti. Hafið kæra þökk fyrir.

1.12.13

Guðrún Pálína í Populus tremula.

Laugardaginn 30.11.2013 opnaði Guðrún Pálína Guðmundsdóttir mjög fína sýningu á portrettum í Populus tremula. Allar myndirnar eru unnar á síðasta ári, en Guðrún Pálína er núverandi bæjarlistamaður Akureyrarbæjar. Þetta var síðasta myndlistasýningin í Populus tremula árið 2013 þó ekki síðasti viðburðurinn. Takk fyrir.