26.3.12

Helga Sigríður og Áttablaðarósin

Laugardaginn 24.mars 2012 opnaði Helga Sigríður Valdimarsdóttir stórskemmtilega sýningu í Populus Tremula undir yfirskriftinni Áttablaðarósin. Helga vinnur sín verk ( málar og föndrar ) útfrá gömlum útsaumsmynstrum og er útkoman flott. Það var Gildagur, opnanir útum allt gil, gott veður og gaman. Takk fyrir.

4.3.12

Ljóðakvöld í Populus Tremula

Laugardagskvöldið 3.3.2012 efndi hið smáa en knáa útgáfuforlag frá Akranesi, Uppheimar, til ljóðakvölds í Populus Tremula. Tvö Uppheimaskáld, Bjarni Gunnarsson og Ari Trausti Guðmundsson lásu upp úr ljóðverkum sínum og var góður rómur gerður að. Eftir upplesturinn urðu skemmtilegar umræður um stöðu ljóðsins hjá lesendum og ljóðunnendum á Íslandi, þar sem hjá bókaþjóðinni virðist ríkja deyfðin ein miðað við sum lönd suður í álfum hvar ljóðaunnendur fylla heilu fótboltavellina til að hlýða á ljóðskáldin sín.  Takk fyrir uppbyggilegt kvöld.

 

3.3.12

Trúbadúrakvöld

Föstudagskvöldið 2.mars 2012 var í merki trúbadúranna í Populus Tremula. Þá stigu á svið trúbadúrarnir geðþekku Þórarinn Hjartarson, Aðalsteinn Svanur Sigfússon, Guðmundur Egill Erlendsson og Kristján Pétur Sigurðsson. Þeir fluttu hver með sínu lagi söngvísur, lög og bragi og annað trums og var glatt á hjalla.